Af væntanlegum tannsmiðum og unganum smáa

fimmtudagur, maí 21, 2009

Þá veit maður það...

Ég veit ekki hvað syni mínum finnst um mig þessa dagana. Jú, reyndar veit ég það alveg en er að hugsa um að deila því með ykkur.

Í gær vorum við á leiðinni uppí Forum. Einhverra hluta vegna finnst honum ég ekki geta borið neitt danskt nafn fram rétt. Þó ég hermi mjög nákvæmlega eftir hans framburði, þá virðist ég aldrei ná að gera það nógu vel. Í gær var ég semsagt að reyna að læra að segja Forum. Eftir að hafa apað upp eftir honum 3x, þá gafst hann alveg upp og hreytti í mig: "MAÐUR Á EKKI AÐ SETJA HAUSINN FRAM". Ég hló svo mikið að kona á förnum vegi sneri sér við og horfði forviða á okkur.
Sjáið bara hvað ég er að vanda mig mikið, líkaminn gengur í bylgjum af áreynslu.

Núna áðan gat ég ekki snúið mér í hálfhring og ýtt sófanum saman með einni hendi. Þá fékk ég að heyra það að ég allt væri erfitt fyrir mig á meðan ég væri svona ólétt. Svo sagði hann að það væri allt erfitt fyrir mig núna - nema eitt... og það væri að borða. Svo væri ég mjög löt en það væri bara afþví að ég er ólétt.

Það er aldeilis skilningur á þessu heimili. Krummi er samt voðalega góður við mig. Þegar við þurfum að stoppa á miðju rölti þá fæ ég yfirleitt klapp á magann eða bakið og einstaklega mikla umhyggju.

Auðvitað er Brynjar líka súper góður við mig, en þessi póstur er ekki um hann...

miðvikudagur, maí 20, 2009

Myndir frá apríl

Eins og kannski flestir vita, þá vorum við á Íslandi um páskana. Við komumst að þeirri niðurstöðu að 10 dagar heima er bara alltof lítill tími. Reyndar vorum við út um allt land og eyddum því dýrmætum tíma í ferðalög.
Svona finnst ungviðinu nú gaman að ferðast í bíl. Þarf að segja meir...
Hér er ég á Hvammstanga að sortera gömul barnaföt. Gjörsamlega búin að RÚSTA stofunni hjá mömmu. Hafið engar áhyggjur, allt var fínt að lokum.Hrafn búinn að finna allt páska góssið. Ég nýtti mér það að hann er orðinn læs og bjó til flókinn getrauna-ratleik. Það var nú ekkert lítið spennandi. Hann var rosalega glaður að fá legó í staðin fyrir eitt eggið í viðbót. Ég mæli með því við allar ömmur og afa að gefa páska gjafir í staðin fyrir súkkulaði. Þ.e.a.s. ef þau vilja endilega gefa eitthvað. Persónulega finnst mér 1 egg vera nóg, en það er líka nauðsynlegt að fá egg.
Ég man að þegar ég var lítil, fengum við Bjöggi skæri frá Helgu ömmu og vorum súper glöð. Öðrum börnum fannst það reyndar hálf fáránlegt en þetta er eitthvað sem aldrei gleymist.
Hann er á mjög skemmtilegum málshátta aldri. Honum finnst mjög merkilegt að lesa málshættina en skilur auðvitað ekkert í þeim. Ekki skemmir fyrir þegar útskýringarnar fást.

Þegar við vorum á Leifsstöð að bíða eftir danmerkur fluginu, þá gerði Krummi sér lítið fyrir um og vann enn eitt páskaeggið í leik sem var þar í gangi. Það má kannski nefna það að það er enn uppá hillu en verður bráðum hámað í sig.

Þrumur og meððí..

Við höfum aldrei lent í öðrum eins þrumum og eldingum og í nótt. Við Brynjar vöknuðum bæði við ljós og læti um kl. 3.30 í nótt. Þrumurnar voru þvílíkar að hér nötraði glerið í gluggunum. Reyndar er ekkert tvöfalt verksmiðjugler hér á okkar heimili, meira svona eitthvað samansett rusl sem er óþétt í þokkabót. Barnið svaf sínu værasta og við urðum bara að segja honum hvað gékk á þégar hann vaknaði í morgun. Auðvitað hefur hann orðið vitni af enn meiri hamagangi í lofti, að eigin sögn. Enda er ómögulegt að hafa upplifað minni og ómerkilegri hluti en aðrir. Við Brynjar vorum andvaka og átum kex og piparfroska okkur til dundurs. Sjálf er ég svo lífsreynd að ég hef lært að telja út hvað eldingarnar eru langt í burtu og fann það út á mjög svo vísindalegan hátt að þær væru ca. 2km frá okkur. Það er líka sú minnsta fjarlægð sem ég hef upplifað. Ég verð að játa að mér var ekki alveg sama því lætin voru svo rosaleg. Ég fór að rífa allskyns rafmagnstæki úr sambandi til öryggis. Hvað á ég, sveita stelpan sjálf að vita um skaðsemi eldinga?

þriðjudagur, maí 19, 2009

Er einhver hundur í þér?

Síðasti laugardagur byrjaði með leiðindum. Hrafn var bitinn af hundspotti heimsku. Hann var að ganga á eftir þeim (voru 2 í bandi) á gangstéttinni og var greinilega of nálægt. Allavega stökk annar hundurinn á hann og rak 1 tönn í hann. Ég sá þetta ekki og vissi ekki að hundurinn hafi bitið fyrr en eigandinn var farinn inní garðinn sinn. Brynjar bankaði uppá hjá gaurnum og sagði hvað hafi gerst og Krummi fékk sýkladrepandi smyrsl, plástur og súkkulaði. Svo á einhvern undraverðan máta, var fólkið farið að halda einvherja ræðu yfir okkur um að það mætti ekki hlaupa aftan að hundum og var með fleiri ásakanir. Ég spurði hvort ég þyrfti ekki að fara með hann til læknis og húsfrúin sagði það algeran óþarfa því hennar hundar væru alltaf með hreinar tennur og bitu aldrei. Þetta átti greinilega að skrifast á Krumma, sem by the way gerði ekkert rangt. Þetta voru bara eitthvað geðsjúkir hundar. Ég hef labbað framhjá garðinum þeirra og þeir standa gaggandi við grindverkið.

Eftir þetta fórum við haltrandi í laugardagsskólann og smíðuðum bát sem hafði blöðru sem mótor. Það var rosalegt fjör og sennilega hálf kjánalegt að sjá mig með sög um hönd að reyna að finna sögunar stellingu sem myndi ekki kremja á mér vömbina. Ég vil meina að minn bátur hafi verið betri en Krummi þvertekur fyrir það og segir sinn fara hraðar og að blaðran á mínum sé eitthvað biluð.

Allan daginn fylgdist ég með bitsárinu og var alltaf að velta því fyrir mér hvort ég ætti að láta líta á þetta. Ég fékk ráð og tillögur frá ýmsum og það endaði á að ég hringdi á slysó. Mér var sagt að mæta. Þar sem slysó er hér rétt hjá, ákvað ég að strætó væri besti fararmátinn. Enda allt í góðu með kauða. En svo breyttist allt. Á leiðinni út á strætóstöð fór Krummi að anda með miklum óhljóðum (eins og hann væri að kafna), svo greip hann um hálsinn og varð skrítinn á svipinn. Eftir það varð honum óglatt og slefaði á jörðina, eins og hann væri að fara að gubba. Ég fríkaði út (á yfirvegaðan máta, inní mér) og tengdi þetta strax við bitið og stífkrampa. Ég veit ekkert hvað stífkrampi er eða hvernig hann virkar. Nú voru góð ráð dýr. Hvort átti ég að taka strætó eða leigubíl? Var ég kannski að fara að standa í strætó-gubbu-atriði? Hvort er betra að láta hann gubba í strætó eða leigubíl? Átti ég kannsi að hringja í sjúkrabíl? Ég kom sjúklingnum að strætóstöðinni og ákvað að bíða átekta. Hann var ekki dularfullur á litinn og virtist ekki vera að kafna eða falla í yfirlið. Ég hélt fast utanum hann og þá leið honum betur. Strætó kom og við dúndruðumst inn. Við komumst alla leið á slysó í strætó og barninu var batnað. Enda brá mér svo mikið að ég sagði honum að hann mætti ekki hræða mig og yrði að segja nákvæmlega hvernig honum liði því þá væri hægt að lækna hann rétt.

Þarna vorum við mætt í afgreiðsuna og ég sagði á spari dönskunni minni "han har været bidt af en hund". Afgreiðsludaman skildi ekki hvað ég sagði. Hrafn sá að hér þyrfti hann að bjarga málunum (ég hef heyrt hann segja við bekkjasystur sína að mamma sín sé ööömurleg í dönsku). Hann sagði á miklu betri dönsku að hann hafi verið bitinn af hundi. Þegar þarna var komið við sögu var hann hress sem vindurinn. Allavega alveg þangað til við vorum leidd inná skyndi skoðunarherbergi eitthvað til að meta hversu alvarlegt þetta væri. Þá var mínum aftur orðið ægilega óglatt og fékk vatn að drekka. Við vorum send í biðstofuna með vatnsglasið og barninu batnaði um leið og hann sá að leikjatölvan var með í för.
Þetta hefur þá bara verið svona rosalega sálrænt hjá honum. Enda afar dramatískt barn.

Á biðstofunni þurftum við að dúsa í rúma 2 tíma. Þarna var allskonar fólk með allskonar eymsli. Það var mikið að gera og nokkrir þurftu að standa á ganginum fyrir utan biðstofuna. Krummi spurði hvort hann þyrfti að vera í hjólastól en það var óþarfi í þetta sinn. Þegar röðin kom loksins að okkur, vorum við fljót afgreidd. Sárið var hreinsað og hann fékk 2 flöskur af fljótandi pensilíni. Þegar ég uppgvötaði að þetta væri í mixtúru formi varð mér um og ó. Hver man ekki eftir ógeðslegu barnæsku meðulunum í vökvaformi, ojj. Nú er öldin önnur. Krumma hlakkar alltaf til að fá skammtinn sinn og segir þetta vera eins og jógúrt á bragðið. Hann getur líka séð lækningarmátt lyfsins og segir sárið minnka á hverjum degi.

Á skaðastofunni spurði ég hvort maður ætti alltaf að koma ef maður yrði fyrir hundabiti og svarið var já. Börn á íslandi fá stífkrampa sprautu þegar þau eru 5 og 14 ára og þær eiga að duga til þess að þau þurfa ekki að fá sprautu við bit. Mér skilst að sprautan eigi að duga í 10 ár, þannig að ef maður er orðinn meira en 24 ára hlýtur maður að þurfa að fá skammt ef maður er bitinn. Þá veit maður það..

þriðjudagur, maí 12, 2009

Öppdeit

Já, löt hefur hún verið að blogga. Það eru nú ýmsar ástæður fyrir því en sú helsta er annríki heimilisins. Annars skulda ég engar útskýringar...

Við fórum heim til Íslands um páskana. Það var rosa gaman að koma heim og ég var eitthvað hissa hvað það var margt sem við vorum farin að heimþráast yfir. Þannig að ég fór að telja hvað væri langt síðan við fluttum til Dk og fékk soldið áfall. Vægt áfall þá. En í dag erum við búin að búa hér í næstum 11 mánuði. Fljótt að líða. Ferið til Íslands var líka furðu fljót að líða og við vonum að við getum verið lengur næst. Næst verður semsagt um jólin.

Hér er veður búið að vera dásamlegt, fyrir utan rigningarvikuna um daginn. Við fengum góða gesti í apríl, þau Hjörvar og Guðný. Þau voru einstaklega heppin með veður. Við þrömmuðum um allan bæ og fengum okkur (allir nema ég auðvitað) slowbjór og fórum í pílukasts-parakeppni. Ég man ekki hvernig stigin fóru en eitthvað rámar mig í að ég sjálf hafi halað inn nokkrum góðum stigum fyrir mitt lið. Að vísu gataði ég eitthvað í hurðina bakvið píluspjaldið líka en það þarf ekkert að fylgja sögunni. Svo um kvöldið buðu gestirnir uppá krókódíla og kengúrur. Svakalega var gaman og gott að smakka það. Við gerðum fullt fleira skemmtilegt en ég hef nú komist að því fyrir fullt og allt að minn heittelskaði er hörmulegur leiðsögumaður. Hann verður t.d. aldrei aftur sendur með ferðalanga uppá flugvöll. Ég frétti nefnilega af leiðinni sem var farinn. Jéssúss og goss.
Ég hef líka komist að því að helgarferðir eru bara alltof stuttar en samt gaman að geta skroppið svona smá. Þið verðið lengur næst...

Við erum loksins að losna við gömlu dýru íbúðina okkar. Þessa dagana erum við að hamast við að þrífa þar og standsetja svo við fáum kannski eitthvað af svívirðilega háu tryggingunni okkar til baka. Við erum svo heppin að þekkja hana dúndur Kristínu (Thunder-Stínu) sem bauð fram hjálp sína með þrif. Og það gerði hún eftir að hafa haldið heilt barna afmæli. Fjúff... og takk aftur.

Ég er alveg að fara að hætta í skólanum. Enda bara 5 vikur til barnsburðar. Ég var líka að fá það staðfest að ég þarf að byrja uppá nýtt á þeirri skóla lotu sem var að byrja á. Þannig að þetta er búið að vera hálf tilgangslaust hjá mér eitthvað. Það er nú ekkert skrítið að ég eigi að byrja uppá nýtt, því ég næ rétt að klára 3 vikur af 10. Enda skildi ég aldrei hvað ég var að byrja á þessu í lok apríl.

Við erum orðnir stoltir apple eigendur. Það var soldið spes að fá allt í einu tölvu í hendurnar sem við þurftum að læra á uppá nýtt. En um leið og hún vandist, þá gátum við ekki skilið pc notkunina á okkur. Hinsvegar skiljum við núna apple hrokann í apple eigendum/notendum, því að kveikja á gömlu risaeðlunni sem við erum búin að nota til nokkura ára, er bara fyndið. Það tekur hana alveg ferð inní eldhús, tvö kex og klósettferð að ræsa sig.

Svo mörg voru þau orð.

þriðjudagur, mars 31, 2009

Jeminn hvað er búið að vera mikið að gera!!

En ekki of mikið til að hanga á netinu til að bera saman veðurspár. Ég valdi kol rangan tíma til að koma til Íslands - veðurlega séð. Ég hafði svosem ekkert val, get huggað mig við það. Svo þoli ég hvort eð er ekki svo mikla sól í einu..

fimmtudagur, febrúar 26, 2009

Sossum lítið að frétta

Ég er aðeins byrjuð að pakka fyrir flutningana. Við sækjum lyklana á sunnudaginn og eitthvað minnir mig að það hafi átt að drekka vínglas að tilefni lyklaskiptana. Það var hugmynd leigusalans. Hann er rosalegur karakter. Ég vildi að ég gæti tekið með mér falda myndavél til að deila honum með ykkur. Kann ekki alveg við það samt. Enda á ég enga myndavél sem hægt er að fela.
Læt hér fylgja mynd af prófverkefninu mínu síðan í desember. Nú er Brynjar og hans hópur í sama prófi. Ég kom við uppí skóla í fyrradag og fann að þar var allt á suðupunkti. Þetta er svo undarlegt og óþjált verkefni að mannskapurinn var vel pirraður. Ég kom mér glottandi í burtu.
Á mánudaginn á ég að byrja í skólapraktík og fer að vinna fyrir launum. Það finnst mér mjög svo undarlegt fyrirkomulag. Ég er semsagt á launum út allan skólan. Auk þess borgar skólinn fyrir strætókortið mitt því ég er að flytja í meira en 10km fjarlægð frá skólanum. Loksins förum við kannski að eignast einhvern pening til að kaupa okkur föt og svona, því ekki hef ég keypt mér nema 3 boli og 1 peysu síðan við fluttum hingað fyrir 8 mánuðum. Aumingja Brynjar hefur fengið 3 nærbuxur og Hrafn, aðeins það sem nauðsynlegt var. Þannig að ég fagna þessum 5.000 kalli sem á eftir að halast inn um hver mánaðarmót.
Ég vona samt að ég eigi eftir að höndla þessa praktík því ég er algjörlega orkulaus þessa dagana. Ég þjáist af svefnleysi og almennum hlunkagangi. Ég er samt búin að passa að fara á fætur kl. 7 með öllum öðrum á heimilinu svo ég snúi ekki sólarhringnum við. Það er svo auðvelt þegar maður er í fríi.
Brynjar er viss um að ég hressist bara við að byrja. Það getur alveg verið rétt hjá honum. Ég þarf bara að passa mig að haga mér eins og dani. Þ.e. að vinna ekki of mikið og ekki of hratt.

mánudagur, febrúar 23, 2009

Síðasta vika

Hrafn var hress alla vikuna. Þessi mynd segir kannski allt sem segja þarf.
Mér dauðbrá á fimmtudaginn þegar ég sótti Hrafn í skólann. Allan daginn hélt ég að þarna væri ljón á ferðinni en svo um kvöldið þegar myndatakan fór fram, kom í ljós að hið meinta ljón var íkorni eftir allt saman. Það segir sig kannski sjálft þegar rýnt er í framtennur dýrsins.

Hér voru bakaðar bollur í gær. Ég fann uppskrift á netinu en hún hefur greinilega verið uppskrift að smábollum. Þær voru mjög svo penar hjá mér að þær voru hámaðar í sig í tveimur munnbitum. Það var líka allt í lagi því að þeim sökum varð hin árlega rjóma glíma auðveldari. Súkkulaðið heppnaðist sérlega vel og eftir átið varð Brynjar gjörsigraður og steinsofnaði. Hann þolir víst ekki svona mikinn sykur, að eigin sögn. Ég hins vegar höndla hann vel og varð öll hin fjörugasta. Krummi svindlaið og át 2 risavaxnar bollur hjá vini sínum áður en hann kom heim. Hann náði svo að borða 1 smábollu hér heima. Ekki sérlega góður árangur það.
Enn á ný finn ég vorþef í lofti - og á kortum. Þá getur húsvöruðurinn Brian kannski slakað á með hávaðasama snjóblásarann sinn sem hann hamaðist um með í gærmorgun. Hver fer að búa til göngustíga í snjóinn klukkan 8 á sunnudagsmorgni? Ég held hann sé ekki með fulle femm þessi maður. Ekki nema von að það kosti að búa hér. Það er svoleiðis hægt að spranga hér um á pinnahælum allt árið, algjörlega óháð veðri og tíðarfari. Svo var allur snjór horfinn (sá sem var ekki blásinn í burtu) um seinnipartinn.
Nú ætti Brian hins vegar að fara að huga að slátturvélinni og arfabrennslugræjunni en hann þarf ekki að dusta rykið af laufblásaranum fyrr en í haust. Annars er aldrei að vita nema hann þurfi að blása einhverju eitthvað fyrir þann tíma. Það er alveg ótrúlegt hvað til er af hávaðasömu og umhverfismengandi óþarfa tækjum. Hvað varð um gömlu hrífuna og járndótið til að moka upp arfa? Ég segi bara, "á hnéin með þig, Brian"....